Samkvæmt heimildum ítalska dagblaðsins La Repubblica mun Barcelona ekki fá mikinn stuðning á San Siro-leikvanginum í kvöld þegar liðið mætir Inter í Meistaradeildinni því aðeins um 400 stuðningsmenn Börsunga munu hafa lagt á sig ferðalagið til Mílanóborgar.
Ítalskir og spænskir fjölmiðlar vilja meina að harðskjarnastuðningsmönnum Barcelona, Blaugrana Boxois Nois ultras-sveitinni, hafi verið skipað af forráðamönnum Barcelona að fara ekki á leikinn og það skýri að vissu leyti hversu fámennur stuðningsmannahópur mætir á leikinn.
San Siro-leikvangurinn tekur tæplega 86 þúsund áhorfendur og þar sem löngu er uppselt á leikinn má telja líklegt að hinar svokölluðu ultra-sveitir stuðningsmanna Inter muni ráða ferðinni í söngnum á pöllunum í kvöld.