Valencia vill fá 50 milljónir evra eða meira fyrir David Villa samkvæmt frétt í spænska blaðinu Marca í dag. Spænsku stórliðin Real Madrid og Barcelona sem og enska liðið Manchester City hafa öll frá því í maí haft mikinn áhuga á að kaupa spænska landsliðsmanninn.
Umboðsmaður David Villa fór yfir málin með forráðamönnum Valencia í gær og þar kom skýrt fram að félagið vildi halda Villa í sínum herbúðum og hann fengi aðeins að fara ef að það kæmi risatilboð í hann.
Áhugi Real Madrid á David Villa er ekki eins mikill eftir að Real keypti Karim Benzema frá Lyon og mestar líkur eru nú á að Barcelona reyni að kaupa hann. Villa skoraði 28 mörk á síðasta tímabili og væri mikill styrkur fyrir Evrópumeistarana að fá þennan 27 ára sóknarmann.

