CSKA Moskva er komið áfram í 16-liða úrslit UEFA-bikarkeppninnar í knattspyrnu eftir 2-0 sigur á Aston Villa í kvöld.
Úrslitin komu ekki á óvart þar sem að Martin O'Neill hvíldi átta byrjunarliðsmenn sem fóru ekki með til Moskvu.
Staðan var markalaus í hálfleik en Juri Zhirkov kom Rússunum yfir á 61. mínútu. Vagner Love bætti svo við síðara markinu í blálok leiksins.
Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli í Birmingham og vann því CSKA samanlagðan 3-1 sigur.
Þá náði úkraínska liðið Metalist Kharkov að fylgja eftir góðum 1-0 sigri á Sampdoria á Ítalíu með 2-0 sigri á heimavelli í kvöld. Samanlögð úrslit því 3-0 fyrir Metalist. Sergej Valjajev og Jajá skoruðu mörk Metalist í kvöld.