Framherjar Roma voru ekki á skotskónum í gær þegar liðið mátti sætta sig við að falla úr leik í Meistaradeildinni á heimavelli eftir vítakeppni gegn Arsenal í 16-liða úrslitunum.
Roma fékk óskabyrjun í leiknum og komst snemma í 1-0, en framherjarnir fóru illa með færi sín bæði í leiknum og síðar í vítakeppninni.
Fyrrum Arsenal maðurinn Julio Baptista fór illa með nokkur færi í venjulegum leiktíma og svo klikkaði Mirko Vucinic illa á punktinum í vítakeppninni.
Það var Max Tonetto sem tryggði Arsenal sigurinn þegar hann skaut hátt yfir úr síðustu spyrnu Rómverja, en lélegasta vítið í keppninni átti Svartfellingurinn Vucinic án nokkurs vafa. Hann skaut boltanum laflaust beint á Manuel Almunia í markinu.
"Ég veit ekki hvernig ég fór að því að klikka og ég trúi því ekki enn. Þetta var virkilega ömurleg spyrna og ef ég hefði sett boltann vinstra- eða hægramegin við markvörðinn hefði ég skorað, því hann hreyfði sig ekki. Stuðningsmenn okkar voru frábærir og það var virkilega súrt að ná ekki að slá Arsenal út," sagði Vucinic.