Sir Alex Ferguson stjóri Manchester United segir að Rio Ferdinand komi tæplega til greina í byrjunarliðið í úrslitaleik meistaradeildarinnar í næstu viku ef hann nær sér ekki heilum fyrir deildarleikinn gegn Hull um helgina.
Ferdinand meiddist á kálfa í síðari leik United gegn Arsenal í meistaradeildinni og hefur misst af þremur síðustu leikjum liðsins. Hann hefur ekki spilað síðan 5. maí og þarf að sýna að hann sé í toppstandi svo Ferguson treysti honum í úrslitaleikinn.
"Ég vona að hann verði búinn að ná sér fyrir sunnudaginn, því ef hann verður það ekki- er hann tæpur í úrslitaleikinn. Hann verður að ná leik áður en hann fer inn í svona stóran leik, því þrjár vikur frá er langur tími," sagði Ferguson.