Ítalskir og spænskir fjölmiðlar keppast nú við að setja saman lista af líklegum eftirmönnum Manuel Pellegrini í starfi hjá Real Madrid fari svo að knattspyrnustjórinn verði látinn fara.
Real Madrid hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum í deild, Meistaradeild og bikar og það þykir eðlilega ekki ásættanlegt í Madrid. Kornið sem fyllti mælinn var hins vegar niðurlægjandi 4-0 tap Real Madrid gegn C-deildarfélaginu Alcorcon í spænska konungsbikarnum í gærkvöldi.
Samkvæmt netmiðlinum Forzaroma.info er Luciano Spalletti, fyrrum knattspyrnustjóri Roma, sagður vera ofarlega á óskalista Madridinga yfir mögulega eftirmenn Pellegrini. Þá hefur Roberto Mancini, fyrrum knattspyrnustjóri Inter, einnig verið nefndur til sögunnar í því samhengi.