Julien Faubert kom til spænska liðsins Real Madrid í vetur á láni frá West Ham en hann hefur fengið fá tækifæri með liðinu. Hann hefur hinsvegar komist í spænsku fjölmiðlanna fyrir allt annað en að standa sig vel inn á vellinum.
Faubert komst í fréttirnar á dögunum þegar hann gleymdi að mæta á æfingu hjá Real Madrid og nú síðast tókst honum að sofna á varamannabekknum á meðan félagar hans misstu spænska meistaratitilinn til Barcelona.
Faubert hefur reyndar aðeins fengið að spila í samtals 55 mínútur á tímabilinu og vissi því að hann var ekki líklegur til að fá tækifæri í leiknum þar sem Real Madrid tapaði 2-3 á móti Villarreal.
Spænska blaðið Marca gerir mikið úr syfju Frakkans og birti tvær myndir af honum á forsíðunni þar sem það leynir sér ekki að Faubert hafi nælt sér í smá lúr í miðjum leik.
Það hneykslaði Spánverjana ekkert síður að Faubert hafi klórað sér á viðkvæmum stað og því er hringað utan um þá athöfn hans á annarri myndinni.