„Það er hæpið að líkja Norræna fjárfestingarbankanum við opinbera sjóði sem fjárfesta í eignum,“ segir Johnny Åkerholm, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans.
Hann bendir á að bankinn, sem er í eigu norrænna ríkja og Eystrasaltsríkja, sé fyrst og fremst lánastofnun.
Åkerholm segir samt sem áður að órói á mörkuðum hafi haft í för með sér mikla eftirspurn eftir lánum hjá bankanum, og ekki síður hafi menn keppst við að lána bankanum fé.
„Við fjármögnum okkur með lánum og útgáfu skuldabréfa á fjármálamörkuðum um allan heim,“ segir Åkerholm. „Á erfiðum tímum á mörkuðum þá höfum við hagnast á góðu orðspori, enda með hæstu lánshæfiseinkunn. Því höfum við getað fengið fé á góðum kjörum.“
Bankinn safnaði í fyrra 4,3 milljörðum evra, eða sem nemur ríflega 500 milljörðum íslenskra króna. Það er hið mesta sem bankinn hefur fengið á einu ári.
Á sama tíma varð sprenging í útlánum hjá sjóðnum. „Við greiddum 2,4 milljarða evra út í lánum í fyrra, sem er hið mesta í sögu sjóðsins.“
Åkerholm segir að það sem af er ári hafi ekkert lát orðið á eftirspurn eftir lánum hjá sjóðnum.
Hann bætir því við að bankinn láni fyrst og fremst til einkafyrirtækja í ríkjunum sem eiga bankann. Eftirspurnin sé ekki síst þaðan.
Fram kom í fréttatilkynningu með árseikningi bankans nú í mars að bankinn sinni einkum langtímalánveitingum til orkuverkefna, umhverfismála og samgangna, auk þess að efla félagslega innviði á svæðum við Eystrasalt.
Um áramót átti sjóðurinn útistandandi lán í 38 löndum. Þar á meðal hefur verið lánað til verkefna í Kína, Rússlandi og Brasilíu.
Þess má geta að Íslendingar eiga 0,9 prósent í Norræna fjárfestingarbankanum. Hins vegar hafa um átta prósent af heildarútlánum sjóðsins ratað hingað til lands.