Englandsbanki hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í fimm prósentum. Þetta er í samræmi við spár enda óttast að verðbólga geti aukist verði vextirnir lækkaðir, líkt og Bloomberg-fréttaveitan greindi frá í gær.
Verðbólga mældist 3,0 prósent í Bretlandi í apríl en verðbólgumarkmið Englandsbanka hljóðar upp á 2,0 prósent. Fari verðbólga yfir þrjú prósent verður Mervyn King, seðlabankastjóri Englandsbanka, að gera grein fyrir hækkuninni frammi fyrir fjármálaráðherra. Slíkt gerðist fyrir rétt rúmu ári.
Breska ríkisútvarpið bendir hins vegar á að seðlabankinn, líkt og bankar í fleiri löndum, sé á milli steins og sleggju enda hafi verð á matvælum og eldsneyti hækkað mikið samhliða því sem dregið hafi úr einkaneyslu. Í ofanálag lækkaði verð á húsnæði að jafnaði um 2,4 prósent í síðasta mánuði, samkvæmt nýjustu tölum.
Lækkun vaxta gæti fengið neytendur til að sleppa taki á veski sínu, að sögn breska ríkisútvarpsins. Litlar líkur eru hins vegar á því í bili, að sögn BBC.
Að því er fram kom hjá Bloomberg-fréttaveitunni í gær er reiknað með því að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum beggja vegna Atlantsála árið á enda.