Fótbolti

Eto´o ætlar til hæstbjóðanda

NordcPhotos/GettyImages

Framherjinn Samuel Eto´o fer ekki leynt með framtíðaráform sín hjá liði Barcelona. Hann er orðinn leiður á þeirri mögru tíð sem hefur verið hjá liðinu undanfarið og ætlar að fara frá liðinu til hæstbjóðanda utan Spánar ef liðið fer ekki að vinna titla.

Barcelona er 11 stigum á eftir erkifjendum sínum í Real Madrid og stuðningsmenn liðsins veifuðu hvítum vasaklútum til að láta í ljós óánægju sína þegar liðið gerði enn eitt jafnteflið um helgina.

"Ef þetta heldur svona áfram á næstu leiktíð, er ég farinn," sagði Eto´o í útvarpsviðtali. "Ég er búinn að gera allt sem hægt er að gera á Spáni og ef ég fer frá Barcelona - fer ég til annars lands. Ég fer þangað sem ég fæ mest borgað," sagði Eto´o.

Hann er bjartsýnn á að Barcelona geti staðið í Manchester United þrátt fyrir lélegt gengi í spænsku deildinni.

"Ég veit ekki af hverju okkur gengur illa í deildinni en við erum í góðri stöðu. Við þurfum að vinna þrjá leiki í viðbót og þá lyftum við bikarnum með stóru eyrun. Leikurinn gegn United er leikur ársins fyrir okkur og við verðum að sanna að við séum betri en þeir. Flestir segja að United sé sigurstranglegra en okkur mun ekki skorta vilja eða skapfestu til að klára þetta einvígi," sagði Eto´o.

Barcelona og United eigast við í fyrri leik sínum í undanúrslitunum á miðvikudagskvöldið og verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Fyrri leikur Liverpool og Chelsea er annað kvöld og verður líka sýndur beint.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×