Nemanja Vidic, varnarmaður Manchester United, segir erfitt að dekka framherjann Didier Drogba hjá Chelsea því menn geti aldrei séð fyrir hvort hann standi í lappirnar í teigum andstæðinganna.
Drogba er stór og stæðilegur framherji, en hefur komið á sig hálfgerðu óorði fyrir leikræna tilburði á vellinum.
Rafa Benitez lýsti yfir áhyggjum sínum á þessu atriði fyrir einvígi Liverpool og Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og nú hefur Vidic gert það sama fyrir úrslitaleikinn í næstu viku.
"Stundum spilar Drogba af miklum krafti, en stundum lætur hann sig detta af litlu tilefni. Hann spilar á mótherja sína og lætur varnarmenn hugsa sig um tvisvar áður en þeir leggja til atlögu við hann. Hann getur látið sig detta til að reyna að fiska víti, en dómarar vita þetta. Þetta verður úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni og ég er viss um að dómarinn þar verður starfi sínu vaxinn," sagði Vidic.
"Drogba er samt frábær leikmaður og mikill markaskorari. Það er ekki auðvelt að ráða við hann," sagði varnarmaðurinn.