Juan Laporta, forseti Barcelona, segir að það sé mikið undir í leik Schalke og Börsunga í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Hann vildi hins vegar ekkert tjá sig um framtíð Frank Rijkaard hjá félaginu.
Laporta segir að ef félagið ætli sér að endurheimta Evrópumeistaratitilinn þurfi félagið á sigri að halda í kvöld.
„Við viljum vinna Meistaradeildina og góð úrslit í kvöld gæti þýtt að við gætum komist í undanúrslitin. Schalke er með gott lið en við erum með betri og hæfileikaríkari leikmenn og getum því unnið leikinn."
Spænskir fjölmiðlar hafa lengi velt fyrir sér framtíð Rijkaard hjá félaginu og undanfarið hefur því verið haldið fram að leitin að eftirmanni hans sé hafin. Laporta vildi þó ekkert ræða um þau málefni.