Þeir Tom Hicks og George Gillett, eigendur Liverpool, verða báðir meðal áhorfenda á leik Liverpool og Arsenal í Meistaradeildinni á miðvikudag en munu ekki sitja saman.
Þetta hefur Liverpool Daily Post eftir heimildum sínum og greinir frá þessu í dag. George Gillett hefur þegar viðurkennt að samband þeirra tveggja sé nú að engu orðið og verði væntanlega aldrei samt aftur.
Hicks verður með tólf manna hópi á leiknum en Gillett mun fljúga til Lundúna frá Colorado í Bandaríkjunum ásamt Foster, syni sínum, á leikinn.
Mikið hefur verið rætt um ritað um málefni eigenda Liverpool og mögulega yfirtöku fjárfestingarfélagsins DIC frá Dubai á hlut annars eða beggja.
Rick Parry, framkvæmdarstjóri Liverpool, hefur farið fram á að deila eigenda félagsins verði leyst sem allra fyrst svo hún komi ekki niður á félaginu sjálfu.