Helstu hlutabréfavísitölur hafa hækkað lítillega í dag. Óvæntur viðsnúningur var á bandarískum hlutabréfamarkaði í gær þegar matsfyrirtækið Standard & Poor's spáði því að bankar og fjármálafyrirtæki muni draga úr afskriftum vegna gengisfellingar á verðbréfasöfnum sem tengjast bandarískum undirmálslánum.
Afskriftirnar hafa valdið miklum búsifjum hjá bönkunum víða um heim og eiga nokkra rót að þeirri niðursveiflu sem hrjáð hefur hlutabréfamarkaði.
Nikkei-vísitalan lækkaði þrátt fyrir þetta um rúm 1,5 prósent og um 0,29 prósent í Hong Kong.
Vísitölur í Evrópu hafa hins vegar hækkað á sama tíma í dag. Þar af hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi hækkað um 0,41 prósent, Dax-vísitalan í Þýskalandi um 0,31 prósent og Cac-40 vísitalan í Frakklandi um 0,16 prósent.