Handbolti

Guðlaugur vill halda áfram í atvinnumennskunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðlaugur Arnarsson í búningi Gummersbach.
Guðlaugur Arnarsson í búningi Gummersbach.

Mál Guðlaugs Arnarssonar og Valdimars Þórssonar, leikmanna HK Malmö í Svíþjóð, eru í biðstöðu eins og er en þó þykir nokkuð ljóst að þeir eru á leið frá félaginu.

Í gær varð það endanlega ljóst að félagið myndi falla í næstefstu deild og á heimasíðu félagsins sagði að þeir væru báðir á leið frá félaginu.

Valdimar sagði í samtali við Vísi að hann væri að bíða eftir því að fá fund með forráðamönnum félagsins. „Það eina sem ég veit er það sem ég hef lesið í fjölmiðlum. Ég á eitt ár eftir af samningi mínum, sem er reyndar með endurskoðunarákvæði í lok tímabilsins, og sé ég ekki fyrir mér að eitthvað félag vilji kaupa mig."

„En ég veit ekki hvort þeir vilji rifta samningnum mínum. Það verður að koma í ljós."

„Hvað mig persónulega varðar vegur kannski þyngst að kærastan mín og ungur sonur eru heima á Íslandi. Það er ekki gaman að hanga hérna einn. Ég er líka orðinn nokkuð þreyttur á handbolta eftir þennan vetur." Valdimar segist þó ætla að halda áfram að spila handbolta.

Guðlaugur ætlar að halda áfram í atvinnumennskunni og er með nokkur járn í eldinum. „Þetta gæti skýrst á næstunni en það er best að segja sem minnst sem stendur. En þetta lítur alls ekkert illa út hjá mér."

Hann segir þennan vetur hafa verið nokkuð mikil vonbrigði fyrir sig og sitt lið. „Ástæðurnar eru margar eins og alltaf. Liðið fékk tíu nýja leikmenn á öllu tímabilinu og skipti til að mynda um markvörð á miðu tímabili. Það skilaði engu. Á endanum var liðið bara ekki nógu gott og því fór sem fór."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×