Roman Calderon, forseti Real Madrid, segist enn bera fullt traust til Bernd Schuster, knattspyrnustjóra Real Madrid, þátt fyrir að liðið féll úr leik í Meistaradeildinni í vikunni.
Real Madrid tapaði fyrir Roma, 2-1, á heimavelli í vikunni og var það fjórða árið í röð sem liðið fellur úr leik keppninar í 16-liða úrslitum.
Real er einnig úr leik í spænsku bikarkeppninni en situr enn á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið hefur titil að verja.
En þrátt fyrir að Real verði aftur meistari í vor er það ekki ávísun á að Schuster fái að halda áfram, eins og dæmi undanfarinna ára hafa sannað.
„Við höfum alltaf haft trú á Schuster og gerum enn," sagði Calderon. „Við megum ekki leyfa okkur að vera svartsýnir í hans garð bara vegna þess sem gerðist á miðvikudaginn. Hann hefur sýnt í öðrum leikjum að hann veit vel hvað hann er að gera."