Gengi bandaríkjadals hefur styrkst lítillega í dag gagnvart evru, sem hefur veikst lítilleg á móti. Dollarinn var í sögulegum botni gagnvart evrunni á mánudag og kostaði ein evra þá 1,528 dali og hafði aldrei verið dýrari. Væntingar um hugsanlega veikingu evrunnar á næstu misserum eiga sinn þátt í þróuninni.
Evran hefur staðið í hæstu hæðum upp á síðkastið og snerti ein evra 100 krónurnar í vikunni.
Háir stýrivextir á evrusvæðinu, sem standa í fjórum prósentum, eiga stóran þátt í styrkingu evrunnar upp á síðkastið. Stýrivextirnir hafa sjaldan verið hærri og hefur verið þrýst á lækkun vaxta til að koma genginu niður og létta undir í því erfiða árferði sem nú er á fjármálamörkuðum.
Breska ríkisútvarpið hefur í dag eftir Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra í Evrópu, að ekki sé útilokað að stýrivextir verði lækkaðir á næstunni enda ljóst að hátt gengi geti komið niður á útflutningsfyrirtækjum.
Vaxtaákvörðunardagur er á evrusvæðinu á morgun og er reiknað með óbreyttum stýrivöxtum að sinni.