Handbolti

Hreiðar með stórleik í sigri Sävehof

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hreiðar Guðmundsson átti stórleik fyrir Sävehof í gær.
Hreiðar Guðmundsson átti stórleik fyrir Sävehof í gær.

Sävehof vann í gær afar mikilvægan sigur í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta er liðið lagði Redbergslid, 28-27.

Redbergslid hefði getað jafnað Sävehof að stigum með sigri en sigurinn var þeim síðarnefndu nauðsynlegur til að halda í við Hammarby og Ystad í toppbaráttu deildarinnar.

Hreiðar fór á kostum í leiknum og varði 21 skot, þar af tvö úr vítum. Hlutfallsmarkvarsla hans var 47% en hann stóð allan leikinn í marki liðsins.

Sävehof er nú í þriðja sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Hammarby og einu á eftir Ystad en bæði eiga þau þó leik til góða.

Íslendingaliðið HK Malmö er í næstneðsta sæti deildarinnar með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×