Er vilji til að bæta kjör kennara? Steinunn Stefánsdóttir skrifar 10. febrúar 2008 10:07 Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra lýsti því yfir á Alþingi á dögunum að hækka þyrfti laun kennara. Það var stór yfirlýsing frá menntamálaráðherra og gaf fyrirheit um ný viðhorf til launamála kennara. Nú hefur Árni Mathiesen fjármálaráðherra í svari við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, ómerkt yfirlýsingu menntamálaráðherra og sagt að hún sé ekki sjónarmið ríkisstjórnarinnar. Hver er þá stefna ríkisstjórnarinnar í launamálum kennara? Ríkið er viðsemjandi framhaldsskólakennara þannig að yfirlýsing fjármálaráðherra lofar ekki góðu fyrir komandi kjarasamninga þeirra. Viðsemjendur grunn- og leikskólakennara eru sveitarfélögin. Stefna ríkisstjórnarinnar skiptir þó miklu máli, einnig í kjaramálum leik- og grunnskólakennara. Það skiptir sköpum fyrir skólakerfið að sátt náist um launamál kennara. Undanfarin ár og áratugi hefur búið um sig spenna meðal kennara vegna óánægju þeirra með laun sín. Afar brýnt er að á þessari spennu slakni svo friður geti ríkt um góðan skóla á Íslandi. Meðalaldur kennara er hár. Ljóst er að mjög hátt hlutfall kennara, bæði í grunn- og framhaldsskólum, fer á eftirlaun á allra næstu árum. Liðlega 45% framhaldsskólakennara eru meira en fimmtíu ára og margir þeirra eiga rétt á að hætta störfum fyrir 67 ára aldur vegna hinnar svokölluðu 95 ára reglu. Staðan í grunnskólunum er svipuð. Því er ekki aðeins mikilvægt að halda í starfandi kennara í skólum landsins heldur einnig að laða hæft ungt fólk til starfa nú þegar svo margar kennarastöður munu losna á næstu tíu til fimmtán árum. Þó að sýnt hafi verið fram á að laun leiki ekki lykilhlutverk í starfsvali þorra fólks er ljóst að ef laun eru mjög lág hafa þau fælandi áhrif. Það gildir ekki síst þegar starfsmenn hafa efnt til mikils kostnaðar við að mennta sig til starfans. Það er ekki ódýrt að mennta sig til kennara, sem nú er þriggja til fjögurra ára háskólanám. Það verður svo sannarlega ekki ódýrara þegar frumvarp menntamálaráðherra um menntun kennara verður að lögum og krafist verður meistaraprófs af kennurum, en það er fullt fimm ára nám. Fagurgali ráðamanna um metnað til að reka hér helst besta menntakerfi í heimi er alþekktur. Þessum metnaði verður að fylgja fjármagn til að greiða laun kennara. Góður kennarahópur er sá þáttur sem vegur allra þyngst þegar skapa á góðan skóla. Því verður kennarastarfið, á öllum skólastigum, að vera eftirsóknarvert. Nú þegar samningar eru lausir ríður á að ráðherrar ríkisstjórnarinnar tali einum rómi um kjaramál kennara. Góður hugur menntamálaráðherra dugir ekki einn og sér. Hér verða verkin að tala. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Lögfræðingurinn sem gleymdi tilgangi laga Sigríður Svanborgardóttir Skoðun Hagnaðurinn sem við afsölum okkur: Af hverju salan á Íslandsbanka er samfélagslegt glapræði Karl Héðinn Kristjánsson Skoðun Munu Ísraelsmenn sprengja bifreið páfa í loft upp? Einar Baldvin Árnason Skoðun Íþróttir eru lykilinn Willum Þór Þórsson Skoðun Þétting byggðar – nokkur mistök gjaldfella ekki stefnuna Samúel Torfi Pétursson Skoðun Breyta lífum til hins betra eða dvelja áfram í hýðum síns vetra? Tómas Ellert Tómasson Skoðun Stærð er ekki mæld í sentimetrum Sigmar Guðmundsson Skoðun Að eiga sæti við borðið Grímur Grímsson Skoðun Áður en íslenskan leysist upp Gamithra Marga Skoðun Hverjum þjónar nýsköpunin? Halldóra Mogensen Skoðun
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra lýsti því yfir á Alþingi á dögunum að hækka þyrfti laun kennara. Það var stór yfirlýsing frá menntamálaráðherra og gaf fyrirheit um ný viðhorf til launamála kennara. Nú hefur Árni Mathiesen fjármálaráðherra í svari við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, ómerkt yfirlýsingu menntamálaráðherra og sagt að hún sé ekki sjónarmið ríkisstjórnarinnar. Hver er þá stefna ríkisstjórnarinnar í launamálum kennara? Ríkið er viðsemjandi framhaldsskólakennara þannig að yfirlýsing fjármálaráðherra lofar ekki góðu fyrir komandi kjarasamninga þeirra. Viðsemjendur grunn- og leikskólakennara eru sveitarfélögin. Stefna ríkisstjórnarinnar skiptir þó miklu máli, einnig í kjaramálum leik- og grunnskólakennara. Það skiptir sköpum fyrir skólakerfið að sátt náist um launamál kennara. Undanfarin ár og áratugi hefur búið um sig spenna meðal kennara vegna óánægju þeirra með laun sín. Afar brýnt er að á þessari spennu slakni svo friður geti ríkt um góðan skóla á Íslandi. Meðalaldur kennara er hár. Ljóst er að mjög hátt hlutfall kennara, bæði í grunn- og framhaldsskólum, fer á eftirlaun á allra næstu árum. Liðlega 45% framhaldsskólakennara eru meira en fimmtíu ára og margir þeirra eiga rétt á að hætta störfum fyrir 67 ára aldur vegna hinnar svokölluðu 95 ára reglu. Staðan í grunnskólunum er svipuð. Því er ekki aðeins mikilvægt að halda í starfandi kennara í skólum landsins heldur einnig að laða hæft ungt fólk til starfa nú þegar svo margar kennarastöður munu losna á næstu tíu til fimmtán árum. Þó að sýnt hafi verið fram á að laun leiki ekki lykilhlutverk í starfsvali þorra fólks er ljóst að ef laun eru mjög lág hafa þau fælandi áhrif. Það gildir ekki síst þegar starfsmenn hafa efnt til mikils kostnaðar við að mennta sig til starfans. Það er ekki ódýrt að mennta sig til kennara, sem nú er þriggja til fjögurra ára háskólanám. Það verður svo sannarlega ekki ódýrara þegar frumvarp menntamálaráðherra um menntun kennara verður að lögum og krafist verður meistaraprófs af kennurum, en það er fullt fimm ára nám. Fagurgali ráðamanna um metnað til að reka hér helst besta menntakerfi í heimi er alþekktur. Þessum metnaði verður að fylgja fjármagn til að greiða laun kennara. Góður kennarahópur er sá þáttur sem vegur allra þyngst þegar skapa á góðan skóla. Því verður kennarastarfið, á öllum skólastigum, að vera eftirsóknarvert. Nú þegar samningar eru lausir ríður á að ráðherrar ríkisstjórnarinnar tali einum rómi um kjaramál kennara. Góður hugur menntamálaráðherra dugir ekki einn og sér. Hér verða verkin að tala.
Hagnaðurinn sem við afsölum okkur: Af hverju salan á Íslandsbanka er samfélagslegt glapræði Karl Héðinn Kristjánsson Skoðun
Hagnaðurinn sem við afsölum okkur: Af hverju salan á Íslandsbanka er samfélagslegt glapræði Karl Héðinn Kristjánsson Skoðun