Handbolti

Hreiðar Levý eftirsóttur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hreiðar Levý Guðmundsson í leik með Sävehof í haust.
Hreiðar Levý Guðmundsson í leik með Sävehof í haust.

Þó nokkur fjöldi liða hafa spurst fyrir um íslenska landsliðsmarkvörðinn Hreiðar Levý Guðmundsson sem leikur með Sävehof í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Hreiðar segist ekki búast við öðru en að klára tímabilið hjá Sävehof en að tímabilinu loknu rennur samningur hans við liðið út.

„Það hafa einhverjar þreifingar í gangi og Sävehof hefur fengið nokkrar fyrirspurnir," sagði Hreiðar við Vísi.

„En þetta mál er ekki langt komið og fer maður fyrst að skoða þessi mál af alvöru þegar eitthvað er komið á pappír."

Hann segir þó erfitt að meta það nú hvort hann muni framlengja samning sinn við Sävehof.

„Það kemur þó vel til greina að spila hér í eitt ár í viðbót. Ég er mjög ánægður hér enda vilja allir hér allt fyrir mig gera. Ég spila líka nánast hverja einustu mínútu með liðinu sem er ekki verra."

Hann neitar því þó ekki að þýska úrvalsdeildin heilli hann. „Ég stefni á að spila í Þýskalandi á næstu árum. En það fer líka eftir því hvaða félög sýna mér áhuga. Ég mun ekki hoppa á hvaða tilboð sem er."

Hreiðar játar því að hann hafi bætt sig nú í vetur en hann hefur þótt standa sig afar vel með Sävehof. „Það gekk líka ágætlega hjá mér á EM í Noregi og nú þarf ég að halda áfram að klífa stigann."

Aðspurður um sænsku deildina segir Hreiðar að hún sé eins sterk og hann bjóst við. „Þetta er ung deild með fullt af mjög góðum og efnilegum leikmönnum. Toppbaráttan er líka mjög jöfn og spennandi og geta í raun allir uninð alla."

Sävehof er sem stendur í fjórða sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum á eftir toppliðum Hammarby og Ystad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×