Handbolti

Ágúst orðaður við norsk félög

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ágúst segir sínum mönnum til.
Ágúst segir sínum mönnum til. Mynd/Daníel

Ágúst Þór Jóhannesson handknattleiksþjálfari er nú staddur í Noregi þar sem hann skoðar aðstæður hjá Levanger sem leikur í úrvalsdeild kvenna þar í landi.

Samkvæmt norskum fjölmiðlum hefur hann einnig verið orðaður við kvennalið Byåsen og karlalið Elverum sem Axel Stefánsson þjálfar nú. Hann lætur af störfum í lok leiktíðarinnar.

Ágúst verður í Levanger til morguns en hann kemur til greina sem næsti þjálfari liðsins ásamt tveimur öðrum. Forráðamenn félagsins vilja þó kynnast öllum þeim sem koma til greina af eigin hendi og hafa því boðið þeim til sín. Stefnt er að því að ráða nýjan þjálfara fyrir 15. mars næstkomandi.

Ágúst er þjálfari Vals sem er sem stendur í öðru sæti N1-deildar kvenna. Hann hefur auk þess þjálfað íslenska kvennalandsliðið sem og karlalið Gróttu.

Levanger er ekki ókunnugt Íslendingum en fyrir skömmu léku þær Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Eva Margrét Kristinsdóttir og Nína Björk Arnfinnsdóttir með félaginu.

Liðið er sem stendur í sjöunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×