Handbolti

Suður-Kórea á Ólympíuleikana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn og aðstandendur suður-kóreska landsliðsins fagna sigrinum í dag.
Leikmenn og aðstandendur suður-kóreska landsliðsins fagna sigrinum í dag. Nordic Photos / Getty Images

Landslið Suður-Kóreu í handbolta tryggði sér í dag sæti á Ólympíuleikunum í Peking með sigri á Japönum í undankeppni Asíu, 28-25.

Undankeppni Asíu fyrir Ólympíuleikana fór upphaflega fram í haust en Alþjóðlega handknattleikssambandið ákvað eftir að hafa verið beitt þrýstingi Alþjóða Ólympíusambandsins að keppnin skyldi verða endurtekin.

Ásakanir voru uppi um að úrslitum leikja hafi verið hagrætt og að dómurum hafi verið mútað. Kúvæt bar sigur úr býtum í fyrri undankeppninni og eftir að IHF greip í taumana ákvað Kúvæt og fjögur önnur lönd að sniðganga síðari undankeppnina.

Aðeins Japan og Suður-Kórea kepptu því um Ólympíusætið bæði í karla og kvennaflokki. Í gær vann kvennalið Suður-Kóreu sér sæti á Ólympíuleikunum.

Handknattleikssamband Asíu neitar þó að viðurkenna seinni undankeppnina og segir að úrslit þeirra fyrri standi enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×