Handbolti

Ísland mætir Rúmeníu í undankeppni EM kvenna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir er fyrirliði íslenska landsliðsins.
Rakel Dögg Bragadóttir er fyrirliði íslenska landsliðsins.

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta á afar erfitt verkefni fyrir höndum í undankeppni EM kvenna sem fer fram í Makedóníu í lok ársins.

Ísland var í þriðja og neðsta styrkleikaflokki í dráttinum en átti möguleika á að mæta liði úr öðrum styrkleikaflokki í undankeppninni.

Rúmenía var hins vegar í fyrsta styrkleikaflokki enda eitt sterkasta landslið álfunnar.

Liðin mætast heima og að heiman og fer fyrri leikurinn fram á Íslandi síðustu helgina í maí og seinni leikurinn er í Rúmeníu fyrstu helgina í júní.

Ísland lék í forkeppni HM 2007 í Rúmeníu í desember árið 2006 og tapaði þá fyrir heimamönnum með ellefu marka mun, 39-28.

Rúmenía komst þó ekki í síðustu úrslitakeppni EM í handbolta en náði þó fjórða sæti í síðustu heimsmeistarakeppni sem fór fram í Frakklandi í síðasta mánuði.

Þá töpuðu Rúmenar fyrir verðandi heimsmeisturum Rússlands í undanúrslitum, 30-20.

Í leiknum um þriðja sætið tapaði liðið naumlega fyrir Þjóðverjum, 36-35.

Undankeppni EM 2008:

Slóvakía - Úkraína

Ísland - Rúmenía

Ítalía - Austurríki

Hvíta-Rússland - Slóvenía

Spánn - Litháen

Svíþjóð - Tékkland

Pólland - Portúgal

Tyrkland - Danmörk

Svartfjallaland - Króatía

Holland - Serbía




Fleiri fréttir

Sjá meira


×