Luis Aragones er ánægður með frammistöðu táningsins Bojan Krkic með Barcelona á leiktíðinni og gæti valið hann í EM-hóp Spánar.
Krkic er ekki nema sautján ára gamall en hefur staðið sig vel með Börsungum á leiktíðinni og sífellt fengið meira að spila.
„Hann hefur verið að spila virkilega vel," sagði Aragones, landsliðsþjálfari Spánar.
Aragones sagði samt sem áður að EM-hópurinn væri langt frá því að vera fullmyndaður en að kjarninn í hópnum yrði myndaður af þeim leikmönnum sem komu landsliðinu í gegnum undankeppnina.
Hann sagði að hópurinn yrði tilkynntur þann 1. mars.