Fótbolti

Eiður: Henry á mikið inni

AFP

Eiður Smári Guðjohnsen vildi lítið tjá sig um sína eigin frammistöðu um helgina þegar hann átti skínandi leik í 4-0 sigri Barcelona á Murcia.

Hann kaus þess heldur að hrósa félaga sínum Thierry Henry sem var maðurinn á bak við þrjú af fjórum mörkum liðsins - þar á meðal markið hans Eiðs Smára.

"Þetta er ekki það besta sem ég hef séð frá Henry, því hann var enn betri á Englandi. Hann sýndi það hinsvegar í dag að hann hefur það sem til þarf til að breyta leikjum. Hann getur orðið betri þegar hann er kominn á fullt og er að mínu mati einn af bestu knattspyrnumönnum allra tíma," sagði Eiður í samtali við spænska fjölmiðla.

Eiður Smári lék á miðjunni í leiknum og náði sér vel á strik. "Ég geri allt sem ég get til að hjálpa liðinu og vinna þjálfarann á mitt band. Það voru mikil vonbrigði að fá ekki að spila á móti Real Madrid um daginn en það var ákvörðun þjálfarans," sagði Eiður, en hann missti sæti sitt óvænt í hendur Deco fyrir leikinn - og sá olli gríðarlegum vonbrigðum í El Clasico.

"Deco er frábær leikmaður en ég er fyrst og fremst að horfa fram á við. Ég velti mér ekki upp úr fortíðinni," sagði Eiður Smári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×