Otto Pfister tilkynnti í dag landsliðshóp Kamerún sem keppir á Afríkumótinu. Samuel Eto'o er á sínum stað en spilar þó með Barcelona um helgina.
Frank Rijkaard sagði á blaðamannafundi í gær að Barcelona hefði fengið skriflegt leyfi frá knattspyrnusambandi Kamerún til að halda eftir Eto'o út vikuna. Hann lék með Börsungum gegn Sevilla í gær og verður væntanlega í liðinu sem mætir Real Murcia í deildinni um helgina.
Talsmaður sambandsins sagði svo hins vegar í gær að slíkt leyfi væri ekki fyrir henni og krafðist þess að Barcelona leyfði Eto'o að fara tafarlaust.
Pfister sagði hins vegar í dag að Barcelona hefði leyfi sitt til að halda eftir Eto'o.
„Barcelona á tvo mikilvæga leiki í þessari viku sem félagið sagði mikilvægt að Eto'o myndi ekki missa af," sagði hann í ríkisútvarpi Kamerún. „Hann er í mjög góðu leikformi og mun ekki verða í neinum vandræðum með að aðlagast hópnum þegar hann kemur til okkar."