Verðbólga mælist nú ellefu prósent á Indlandi, samkvæmt tölum hagstofu landsins. Verðbólgutölur sem þessar hafa ekki sést í þrettán ár. Hún var 8,75 prósent í mánuðinum á undan.
Efri verðbólguviðmið indverska seðlabankans standa í 5,5 prósentum.
Líkt og í fleiri löndum liggur verðbólguþrýstingurinn helst í hækkandi verði á olíu og matvælum.
Niðurstaðan kom greinendum á óvart, að sögn breska ríkisútvarpsins. Indverski seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 25 punkta í síðustu viku og standa stýrivextir í átta prósentum. Reiknað er með frekari hækkun til að sporna við aukinni verðbólgu.
Gengi hlutabréfa í indversku kauphöllinni féll um tvö prósent í dag og spá fjármálasérfræðingar því að gengið eigi enn eftir að lækka.