5-0 sigur Barcelona er meðal þeirra stærstu sem komið hafa á útivelli í sögu Meistaradeildar Evrópu. Börsungar unnu 5-0 sigur á Basel í Sviss í gær.
Fimm lið hafa náð þeim árangri að vinna leik með fimm marka mun á útivelli en síðast gerðist það fyrir fjórum árum síðan er Monaco vann 5-0 sigur á Deportivo La Coruna.
Valencia (gegn Sturm Graz, 2001), Chelsea (gegn Galatasaray, 1999) og Porto (gegn Werder Bremen, 1994) eru einnig á þessum lista.
Þetta er í sjötta sinn sem Barcelona vinnur 5-0 sigur í Meistaradeildinni en í fyrsta sinn á útivelli.
Stærsti sigur Börsunga í öllum Evrópukeppnum er 8-0 en það hefur tvívegis gerst. Fyrst í Evrópukeppni bikarhafa tímabilið 1982-3 gegn Apollon Limassol frá Grikklandi og svo aftur í UEFA-bikarkeppninni tímabilið 2003-4 gegn Matador Puchov frá Slóvakíu.