Barcelona hefur nú staðfest að Frank Rijkaard muni láta af störfum hjá félaginu í sumar og að Josep Guardiola muni taka við starfinu hans.
Rijkaard var ráðinn árið 2003 og vann spænska meistaratitilinn með félaginu árin 2005 og 2006. Félagið varð einnig Evrópumeistari árið 2006.
En síðan þá hafa Börsungar ekki náð titli og eru í þriðja sæti deildarinnar, sautján stigum á eftir Real Madrid. Í gærkvöldi tapaði Barcelona fyrir Real Madrid, 4-1.
„Josep hefur það sem til þarf til að ná árangri," sagði Joan Laporta, forseti Barcelona.
Jose Mourinho hefur lengi verið orðaður við stjórastöðuna hjá Barcelona en Laporta er sagður hafa frekar viljað fá Guardiola.

