Bandarísk heimasíða býður til sölu tvo miða á leik Chelsea og Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld á 800 þúsund krónur stykkið. Smelltu hér til að sjá síðuna þar sem miðarnir eru til sölu.
Eins og gefur að skilja er mikill áhugi á leiknum enda sæti í sjálfum úrslitaleiknum gegn Manchester United í húfi. Liðin gerðu jafntefli á heimavelli Liverpool í síðustu viku en löngu uppselt er á leikinn í kvöld sem fer fram á Stamford Bridge í Lundúnum.
Þó eru margar miðasölur á netinu sem hafa miða til sölu og er ein þeirra með miða til sölu á 185 þúsund krónur.
Það er reyndar ólöglegt í Bretlandi að selja miða á knattspyrnuleiki á netinu en það nær ekki yfir fyrirtæki sem eru ekki staðsett þar í landi.
Þegar er byrjað að selja miða á úrslitaleikinn á netinu þar sem miðaverð er á bilinu 191 til 750 þúsund krónur.