Fótbolti

Úrvalslið ársins á Spáni

Miðjumaðurinn Guti var í úrvalsliði spænsku úrvalsdeildarinnar á síðu Uefa
Miðjumaðurinn Guti var í úrvalsliði spænsku úrvalsdeildarinnar á síðu Uefa NordcPhotos/GettyImages

Knattspyrnusamband Evrópu hefur nú birt úrvalslið leiktíðarinnar á Spáni sem valið var í könnun á heimasíðu sambandsins. Þar eru aðeins fimm leikmenn úr landsliðshópi Luis Aragones fyrir EM í sumar.

Tveir spænskir leikmenn sem ekki voru valdir í landsliðið eru í þessu úrvali og þá fjórir leikmenn frá löndum Suður-Ameríku.

Iker Casillas landsliðsmarkvörður og leikmaður Real Madrid stendur milli stanganna í úrvalsliðinu og það kemur líklega fæstum á óvart.

Hægri bakvörður er Sergio Ramos frá Real Madrid, vinstri bakvörður Joan Capdevila hjá Villarreal og miðverðir eru Argentínumennirnir Cata Diaz og Fabricio Coloccini frá Debortivo.

Þriggja manna miðju úrvalsliðsins skipa landsliðsmaðurinn Andres Iniesta frá Barcelona og tveir spænskir miðjumenn sem ekki voru valdir í landsliðið. Þetta eru þeir Guti frá Real Madrid og Jorge Lopez hjá Racing Santander.

Framherjarnir virðast hafa verið valdir mikið vegna markaskorunar í vetur, því þar eru þeir Luiz Fabiano frá Sevilla (24 mörk), Daniel Guiza frá Mallorca (27 mörk) og Sergio Aguero frá Atletico (19 mörk).

Marcilino, þjálfari Racing Santander, var kosinn þjálfari úrvalsliðsins en undir hans stjórn náði Santander öllum að óvörum í sjötta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×