Álasund vann í dag 4-1 sigur á Sogndal í fyrri leik liðanna um laust sæti í norsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Álasund varð í næstneðsta sæti norsku úrvalsdeildinnar sem öllu jöfnu hefði þýtt að liðið hefði fallið úr deildinni. En þar sem liðunum í deildinni verður fjölgað úr fjórtán í sextán féll aðeins eitt lið sjálfkrafa í B-deildina.
Sogndal varð í fjórða sæti B-deildarinnar og lék á heimavelli í dag en liðin mætast á ný í næstu viku, þá á heimavelli Álasunds.
Haraldur Freyr Guðmundsson var ekki í byrjunarliði Álasunds í dag en kom inn á sem varamaður strax á 26. mínútu.
En úrslitin þýða að Álasund má tapa með tveggja marka mun í heimaleiknum til að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni.