Dirk Kuyt var hetja Liverpool er hann skaut liðið áfram í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu undir lok framlengingar leiks Liverpool og Standard Liege frá Belgíu í kvöld.
Kuyt skoraði markið af stuttu færi eftir laglegan undirbúning og fyrirgjöf Ryan Babel.
Belgarnir áttu þó heilmikið í leiknum í kvöld en þeir voru óheppnir að vinna ekki á heimavelli í fyrri viðureign liðanna. Pepe Reina, markvörður Liverpool, bjargaði glæsilega í tvígang í venjulegum leiktíma á heimavelli Liverpool í kvöld.
Skömmu áður en markið kom átti Liverpool reyndar að fá vítaspyrnu er brotið var á Nabil El Zhar í vítateig Standard Liege en ekkert var dæmt.
Þetta var 100. leikur Dirk Kuyt fyrir Liverpool í kvöld.
Fótbolti