Framherjinn James Posey hjá meistaraliði Boston Celtics ákvað í gærkvöld að gera fjögurra ára samning við New Orleans Hornets í NBA deildinni. Samningurinn er sagður metinn á 25 milljónir dollara, en Boston var ekki tilbúið að bjóða honum svo mikið.
Posey var lykilmaður í liði Boston á síðustu leiktíð og átti ekki síður góðar rispur með liðinu af bekknum í úrslitakeppninni þar sem hann skoraði mikilvæg stig og spilaði góða vörn. Hann varð einnig NBA meistari með liði Miami Heat árið 2006.