Tilkynnt hefur verið um að fjórir hestar hafi fallið á lyfjaprófi á Ólympíuleikunum í Peking. Lyfið casaicin fannst í hrossunum en það er stranglega bannað í hestaíþróttum.
Írinn Denis Lynch á hestinum Lantinus, Norðmaðurinn Tony Andre Hansen á Camiro, Brasilíumaðurinn Bernardo Alves á Chupa Chup og Þjóðverjinn Christian Ahlmann á Coster hafa allir verið settir í bann.
Ef B-sýnin staðfesta A-sýnin verða þjóðir þeirra dæmdar úr leik í liðakeppninni sem fór fram á mánudag. Noregur vann bronsverðlaunin í liðakeppninni. Bandaríkin unnu gull og Kanada silfur.
Þýskaland missti gullverðlaun sín í liðakeppninni í Aþenu fyrir fjórum árum eftir að hestur féll á lyfjaprófi. Það er allt útlit fyrir að Noregur missi bronsverðlaun sín í ár og Sviss færist upp í þriðja sætið.