John Terry, fyrirliði Chelsea, segir að leikmenn liðsins styðji Avram Grant, knattspyrnustjóra liðsins.
Chelsea mætir Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld en það er fyrri leikur liðanna í rimmunni.
Enskir fjölmiðlar hafa í allan vetur sagt frá því að margir leikmanna Chelsea voru óánægðir með ráðningu Grant eftir að Jose Mourinho hætti hjá félaginu í haust.
„Þetta eru fáranlegar fullyrðingar," sagði Terry á blaðamannafundi í dag. „Við styðjum stjórann heils hugar. Það er enginn sem gengur á dyr og enginn sem baktalar aðra."
„Þetta er undarlegt því síðan að Avram tók við höfum við ávallt komið saman og rætt málin okkar á milli ef við erum ósáttir við eitthvað."
Terry sagði einnig að Chelsea ætlaði sér að sækja á Anfield á morgun.
„Við erum komnir hingað til að vinna leikinn en ekki til að loka búðinni. Við viljum skora mörk og setja pressuna á Liverpool. Við höfum sýnt mikinn karakter og samvinnu og höfum þá leikmenn sem við þurfum til að komast áfram í keppninni."
„Þetta verður erfitt en þau útivallarmörk sem við getum farið með í síðari leikinn gætu hjálpað okkur síðar meir."
Þetta er í þriðja sinn sem Liverpool og Chelsea mætast í undanúrslitum Meistaradeildarinnar en Liverpool hefur sigrað í bæði skiptin.
„Sú tilfinning fer aldrei en það verður léttir ef við komumst í úrslitaleikinn og lyftum bikarnum."
