Real Madrid skaust í kvöld í toppsætið í spænsku deildinni í knattspyrnu eftir dramatískan 2-1 sigur á grönnum sínum í Atletico.
Ruus van Nistelrooy kom Real yfir með marki á fyrstu mínútu leiksins, en var vikið af leikvelli um miðbik hálfleiksins - rétt eins og Luis Perea hjá Atletico.
Simao náði að jafna leikinn fyrir Atletico með marki úr aukaspyrnu á 90. mínútu, en það var svo Gonzalo Higuain sem tryggði Real sigurinn með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var þegar fimm mínútur voru komnar fram í uppbótartíma.
Real Madrid, Valencia og Villarreal hafa öll 16 stig á toppnum, en Villarreal getur komist í efsta sætið með sigri á Espanyol í kvöld.