Didier Drogba gat ekki stillt sig um að skjóta einu skoti enn á Rafa Benitez eftir að Chelsea sló Liverpool út í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.
Benitez gagnrýndi Drogba fyrir leikaraskap fyrir einvígi liðanna og Drogba fagnaði öðru marka sinna í kvöld með því að taka svansdýfu í átt að varamannabekk þeirra Rauðu.
"Það er frábært að við séum komnir í úrslitin. Við höfum beðið eftir þessu svo lengi og þetta er frábær dagur fyrir Chelsea," sagði Fílstrendingurinn og gerði upp mál sín við Rafa Benitez.
"Þetta var leiðinlegt því Rafa er einn besti þjálfarinn í heiminum. Ég var mjög vonsvikinn þegar ég heyrði hvað hann sagði. Kannski fann hann bara að liðið hans var ekki eins sterkt og það hefur verið undanfarin ár og óttaðist að tapa. Ég er bara ánægður að við unnum og er ekki að hugsa um það sem aðrir segja," sagði Drogba, en bætti samt við;
"Fótbolti á ekki að snúast um gagnrýni og menn eiga að tala við sína eigin leikmenn, ekki um aðra í blöðunum. Þetta er ekki gott fyrir ímynd mína. Ég geri allt sem ég get fyrir enska knattspyrnu og svona gagnrýni er ekki sanngjörn. En þessu er lokið núna," sagði Drogba.