Tónlist

Klezmer á konsert

Ragnheiður Gröndal, söngkona
Ragnheiður Gröndal, söngkona
Það var fullt á sunnudagskvöld í Neskirkju þegar söngsveitin Fílharmónía hélt þar tónleika á sunnudag. Í kvöld gefst öllum þeim sem misstu af sunnudagstónleikunum tækifæri til að mæta og sjá og heyra kórinn flytja þjóðlagatónlist gyðinga frá Austur-Evrópu, klezmer, sem hefur átt sívaxandi vinsældum að fagna hér á landi á liðnum árum.

Með Fílharmóníunni koma fram systkinin Ragnheiður og Haukur Gröndal og þjóðlagasveit hans. Magnús Ragnarsson er stjórnandi tónleikanna.

Þau systkin Haukur og Ragnheiður hafa átt mikinn þátt í að vekja athygli á þessari litríku og fjörugu tónlist hér á landi. Í henni blandast saman forn stef úr trúarlegri tónlist gyðinga við dans- og þjóðlagatónlist Evrópu og Mið-Austurlanda, ekki síst úr grískri og tyrkneskri alþýðutónlist. Haukur Gröndal stofnaði íslensk-dönsku klezmerhljómsveitina Schpilkas, sem hefur gefið út tvær hljómplötur, en Ragnheiður söng með hljómsveitinni. Ragnheiði Gröndal þarf ekki að kynna fyrir íslenskum tónlistarunnendum. Hún hefur sungið sig inn í hug og hjörtu landsmanna og gefið út fjórar sólóplötur sem allar hafa náð miklum vinsældum og sungið með ýmsum hljómsveitum auk Schpilkas. Söngsveitin hélt klezmertónleika með þeim systkinum haustið 2007 sem þóttu takast afar vel.

Í hljómsveitinni leika auk Hauks, Erik Qvick á trommur, Matthías Stefánsson á fiðlu, Vadim Fedorov á harmóníku og Þorgrímur Jónsson á kontrabassa. Tónleikarnir í kvöld hefjast kl. 20 í Neskirkju (við Hagatorg). Miðar fást í versluninni 12 tónum á Skólavörðustíg og við innganginn.- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×