Gengi hlutabréfa hefur almennt hækkað á evrópskum hlutabréfamörkuðum í dag eftir stökk vestanhafs í gærkvöldi. Hækkunina má að mestu leyti rekja til góðrar afkomu bandaríska bankans Wells Fargo á öðrum fjórðungi.
Þótt hagnaður bankans hafi dregist saman um rúm 20 prósent á milli ára á öðrum fjórðungi ársins var afkoman talsvert yfir væntingum. Mestu munar um hátt hlutfall vanskila á lánum. Bankinn á hins vegar ekkert af undirmálslánum, sem skekið hafa bandarískt fjármálakerfi undanfarið.
Gengi bréfa í Wells Fargo rauk upp um 32,8 prósent eftir að afkomutölurnar lágu fyrir. Svipuðu máli gegndi um gengi fjölmargra annarra banka vestanhafs í gær.
Þessi þróun hefur smitað út frá sér til Evrópu í dag, að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar.
FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur hækkað um 1,47 prósent, Dax-vísitalan í Þýskalandi um 1,16 prósent og CAC-40 vísitalan í Frakklandi um 1,42 prósent.
Þá hefur nokkur hækkun verið á norrænum hlutabréfamörkuðum í morgun en samnorræna hlutabréfavísitalan OMX-40 hefur hækkað um 2,15 prósent. Mest er hækkunin í kauphöllinni í Stokkhólmi í Svíþjóð en vísitalan þar í landi hefur hækkað um 2,35 prósent. C-20 vísitalan í Danmörku hefur hækkað um 1,93 og vísitalan í Finnlandi um 1,11 prósent.