Bandarísk hlutabréf hækkuðu almennt í verði í dag en fjárfestar þykja afar bjartsýnir á að átak Baracks Obama, verðandi forseta landsins, til endurreisnar á bandarísku efnahagslífi muni ganga eftir.
Á meðal verkefna forsetans verðandi, sem hann kynnti um helgina, er aukinn kraftur í vegalagningu, byggingastarfsemi á vegum hins opinbera og uppbyggingu háhraðanettenginga um landið endilangt, svo fátt eitt sé nefnt.
Gangi allt að óskum verður verkefnið eitt það viðamesta sem bandaríska stjórnkerfið hefur staðið fyrir síðan í vegalagningunni ríkja á milli fyrir hálfri öld, að sögn Associated Press-fréttaveitunnar.
Gengi bréfa í iðnfyrirtækjum og framleiðendum þungavinnuvéla hækkaði talsvert. Svo sem í bréfum Caterpillar, sem stökk upp um þrettán prósent. Þá hækkaði gengi bréfa í álrisanum Alcoa, sem rekur álverið á Reyðarfirði, um nítján prósent.
S&P 500-hlutabréfavísitalan hækkaði um 3,84 prósent, Dow Jones-vísitalan um 3,46 prósent og Nasdaq-vísitalan um 4,14 prósent.