Arsene Wenger er spenntur fyrir mótherjum Arsenal í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir sjálfum Evrópumeisturunum, AC Milan.
"Þetta verður sannarlega áhugaverð rimma," sagði Wenger í samtali við Sky. "Getum við unnið Milan? Ef við spilum eins vel og við getum. Það er gaman að hafa þennan leik á dagskránni í mars því við erum með marga unga leikmenn í hópnum sem eru alltaf að verða betri."
Wenger segir ekkert leyndarmál að mótherjinn sé gríðarlega sterkur.
"Milan er núverandi Evrópumeistari svo það er augljóst að þar er á ferðinni alvörulið. Þetta er risaverkefni og ég hef trú á því að við getum slegið þá út úr keppninni. Ef maður ætlar að vinna Evrópukeppnina þarf maður að vinna stórlið og það er Milan svo sannarlega. Ég trúi því að við getum það," sagði Wenger.