Fótbolti

Auðvitað á Eiður að byrja gegn Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður fagnar marki sínu um helgina með þeim Giovanni og Samuel Eto'o.
Eiður fagnar marki sínu um helgina með þeim Giovanni og Samuel Eto'o. Nordic Photos / AFP

Pitu Abril, dálkahöfundur í spænska dagblaðinu El Mundo Deportivo, segir að Eiður Smári Guðjohnsen eigi að sjálfsögðu að halda sæti sínu í byrjunarliði Barcelona gegn Real Madrid um helgina.

Abril segir að frammistaða Eiðs Smára gegn Valencia um helgina hafi borið skugga á mörkin tvö sem Samuel Eto'o skoraði og frábæra frammistöðu Xavi Hernandez í leiknum. Hann hafi sýnt að hann sé mikilvægur hlekkur á milli miðju og sóknar hjá liðinu.

Hann segir einnig að Eiður hafi staðið sig vel gegn Espanyol og að leikurinn gegn Stuttgart í Meistaradeildinni hafi verið hans besta frammistaða á tímabilinu. En á Mestalla, heimavelli Valencia, á laugardaginn hafi hann sýnt frábæra takta með þeim Xavi og Toure á miðjunni.

Abril segir að það komi honum ekki á óvart að Eiður skuli fyrst núna blómstra með Barcelona. Þegar hann kom til félagsins var því haldið fram að hann ætti að vera hinn fullkomni eftirmaður Henrik Larsson. En Eiður er ekki sóknarmaður, hann er miðjumaður.

Sem slíkur hafi hann gott vald á boltanum, hann spili vel þegar hann snúi baki í markið og haldi aldrei boltanum lengur en hann þurfi. Hann sé þungamiðjan í stórhættulegu samspili þeirra Xavi, Messi og Eto'o.

„Ætti Eiður Smári að halda sæti sínu í byrjunarliðinu gegn Real Madrid? Að sjálfsögðu. En það væri mistök að halda að vegna hans sé Ronaldinho á bekknum. Eiður ætti að berjast fyrir sæti sínu á miðjunni. Á sunnudaginn verður hann örugglega á sínum stað og jafnvel við hlið Ronnie, góðvinar síns."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×