Handbolti

Handboltinn í Evrópu: Mikilvægur sigur hjá GOG

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson og félagar í GOG unnu góðan sigur um helgina.
Snorri Steinn Guðjónsson og félagar í GOG unnu góðan sigur um helgina. Nordic Photos / Bongarts

GOG vann í dag eins marks sigur á Århus GF í toppslag í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Snorri Steinn Guðjónsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson skoruðu þrjú mörk hver í leiknum fyrir GOG en Sturla Ásgeirsson skoraði fimm mörk fyrir AGF.

Bæði lið voru með nítján stig fyrir leikinn en GOG er nú með 21 stig í öðru sæti deildarinnar og er þremur stigum á eftir toppliði FCK.

Skjern vann í dag tveggja marka sigur á Team Tvis, 29-27, í sömu deild. Vignir Svavarsson skoraði þrjú mörk í leiknum.

Skjern er í fimmta sæti deildarinnar, með nítján stig rétt eins og AGF og Kolding.

Þýskaland

Þrír leikir fóru fram í gærkvöldi í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta sem ekki var búið að greina frá á Vísi.

Lemgo vann stórsigur á Füchse Berlin, 38-24, og skoraði Logi Geirsson eitt mark í leiknum. Þá tapaði Wilhelmshaven á heimavelli fyrir Magdeburg, 29-23, en Gylfi Gylfason var markahæstur hjá fyrrnefnda liðinu með fimm mörk.

Þá vann Balingen sigur á Melsungen, 29-28. Lemgo er í sjötta sæti deildarinnar með 21 stig og Wilhelmshaven í þrettánda sæti með tíu stig.

Í norðurriðli 1. deildarinnar spiluðu bæði Íslendingaliðin um helgina. Í gær vann Hannover-Burgdorf eins marks sigur á LHC Cottbus, 30-29. Heiðmar Felixsson skoraði níu mörk fyrir Burgdorf en Heiðmar og félagar voru með sex marka forystu í leiknum þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

Elías Már Halldórsson skoraði eitt mark fyrir Empor Rostock sem tapaði á heimavelli fyrir Anhalt Bernburg, 22-19. Elías Már hefur fengið sig lausan undan samningi við Rostock og hættir hjá liðinu um áramótin.

Hannover-Burgdorf er í fjórða sæti deildarinnar með 21 stig en Rostock í því tíunda með tólf stig.

Spánn

Heil umferð fór fram í spnæsku úrvalsdeildinni í gær. Ciudad Real er enn á toppi deildarinnar eftir fimmtán umferðir með eins stigs forystu á Barcelona.

Ciudad Real vann í gær átján marka sigur á Algeciras, 47-29. Ólafur Stefánsson var að venju í byrjunarliði Ciudad og skoraði sjö mörk í leiknum, þar af þrjú úr vítaköstum.

Ademar Leon vann sigur á Cantabria á útivelli, 27-23. Sigfús Sigurðsson náði ekki að koma sér á blað í leiknum.

Þá skoraði Árni Þór Sigtryggsson tvö mörk fyrir Granollers sem vann góðan sigur á Antequera, 26-19. Granollers er í ellefta sæti deildarinnar með tíu stig en Ademar Leon í því fjórða með 22 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Ciudad Real.

Svíþjóð

Hreiðar Levý Guðmundsson og félagar í Sävehof töpuðu um helgina óvænt fyrir Skövde á heimavelli, 33-31. Liðið er nú í fimmta sæti deildarinnar með nítján stig, sex stigum á eftir toppliði Hammarby.

Hammarby vann einmitt sigur á hinu Íslendingaliðinu í deildinni, HK Malmö, 34-25 á heimavelli eftir að staðan var jöfn í hálfleik, 18-18.

Hvorki Valdimar ÞórssonGuðlaugur Arnarsson komust á blað hjá Malmö sem situr í næstneðsta sæti deildarinnar með sjö stig eftir sextán leiki.

Frakkland

Bjarni Fritzson skoraði þrjú mörk fyrir St. Raphael sem vann góðan sigur á Paris, 35-30, á heimavelli. USAM Nimes tapaði hins vegar öðrum leiknum í röð án Ragnars Óskarssonar sem er frá vegna meiðsla. Í þetta sinn tapaði liðið fyrir Montpellier, 33-26, á heimavelli.

Montpellier er á toppi deildarinnar með 26 stig, USAM Nimes er í því sjöunda með fjórtán stig rétt eins og St. Raphael sem er í áttunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×