Sjö stuðningsmenn Manchester United voru fluttir á sjúkrahús í tengslum við leik liðsins gegn Roma í Róm á Ítalíu í kvöld. Fimm þeirra hlutu stungusár eftir átök sem urðu fyrir utan leikvanginn fyrir leikinn, en tveir þeirra voru ofurölvi að sögn talsmanns sendiráðsins í Róm.
Enginn er sagður hafa slasast alvarlega í átökunum en annar hinna ölvuðu var 16 ára gamall piltur. Talsmaðurinn vildi ekki gefa upp hvort einhverjir hefðu verið handteknir í látunum, en skari lögreglumanna stöðvaði átökin með kylfubarsmíðum.
Öryggisviðbúnaður var mjög mikill í Róm í kvöld enda var mikill hiti í stuðnngsmönnum liðanna þegar þau mættust síðast í Evrópukeppninni.