Leikmenn Chelsea gleymdu skotskónum heima í kvöld þegar þeir gerðu markalaust jafntefli við heillum horfið lið Valencia í lokaleik sínum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Salomon Kalou skaut í slá fyrir opnu marki og þeir Joe Cole, Claudio Pizarro og Andriy Shevchenko létu gamla brýnið Santiago Canizares í marki þeirra spænsku fara illa með sig hvað eftir annað.
"Við fengum nóg af færum til að klára þetta og vorum að spila ágætlega, en við komum boltanum bara ekki í netið - þetta var fín æfing fyrir okkur," sagði Joe Cole í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.
Chelsea hefur ekki tapað á heimavelli í keppninni og Cole lýsti ánægju sinni yfir því. "Þetta er frábær árangur og við verðum að halda áfram að vinna á heimavelli og einbeita okkur að því að bæta okkur á útivöllunum."
Petr Cech spilaði sinn fyrsta leik fyrir Chelsea síðan hann lék gegn Schalke í sömu keppni fyrir mánuði og sagðist finna sig vel í endurkomunni. "Mér líður vel og ég er í ágætu formi. Mér fannst við spila frábæran bolta í kvöld," sagði markvörðurinn.