Handbolti

64 íslensk mörk í fjórum löndum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ingimundur Ingimundarson skoraði tíu mörk fyrir Elverum í kvöld.
Ingimundur Ingimundarson skoraði tíu mörk fyrir Elverum í kvöld. Mynd/Pjetur

Fjölmargir íslenskir handboltamenn léku með sínum liðum víða í Evrópu í kvöld.

Danmörk 

GOG kom sér í kvöld í annað sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta eftir fjórtán marka sigur á TMS, 40-26.

Snorri Steinn Guðjónsson skoraði tvö mörk fyrir GOG og Ásgeir Örn Hallgrímsson eitt. Þorri Gunnarsson skorað þrjú mörk fyrir TMS.

FCK er þó enn á toppi deildarinnar eftir stórsigur á botnliði Skanderborg, 36-17. Arnór Atlason komst ekki á blað hjá FCK í kvöld.

Þá vann Skjern lið Fredericia með minnsta mun, 30-29, á útivelli. Vignir Svavarsson var annar markahæstu leikmanna Skjern með sjö mörk en Hannes Jón Jónsson skoraði sex mörk fyrir Fredericia.

Gísli Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Fredericia og Fannar Þorbjörnsson eitt.

Sturla Ásgeirsson fór mikinn með Århus GF er hann skoraði átta mörk fyrir liðið í sigurleik gegn Nordsjælland, 33-29.

Mikil spenna er í toppbaráttunni í Danmörku en aðeins fimm stig skilja að efstu níu liðin.

FCK er í efsta sæti með 20 stig, GOG í öðru með nítján, Århus í sjötta með sautján, Skjern í sjöunda með sextán og Fredericia í því áttunda með fimmtán stig.

TMS er í næstneðsta sæti deildarinnar með þrjú stig.

Frakkland 

Í Frakklandi vann USAM Nimes þriggja marka sigur á St. Raphael í Íslendingaslag, 26-23, en Bjarni Fritzson skoraði þrjú mörk fyrir síðarnefnda liðið.

Ragnar Óskarsson lék ekki með Nimes vegna meiðsla.

Nimes er nú í sjötta sæti deildarinnar með fjórtán stig en St. Raphael í því áttunda með tólf.

Svíþjóð 

Í Svíþjóð tapaði HK Malmö enn einum leiknum, í þetta sinn fyrir Redbergslid, 26-18. Valdimar Þórsson skoraði þrjú mörk í leiknum, þar af eitt úr víti, og Guðlaugur Arnarsson var með tvö.

Sävehof vann nauman sigur á Ystad á útivelli, 31-30. Hreiðar Guðmundsson stóð í marki Sävehof.

Sävehof er í þriðja sæti deildarinnar með nítján stig, tveimur á eftir toppliðum Hammarby og Redbergslid.

HK Malmö er í þriðja neðsta sæti deildarinnar með sjö stig.

Noregur 

Þá fór einnig fram heil umferð í norsku úrvalsdeildinni í handbolta. Elverum vann fjögurra marka sigur á Bodö, 31-27. Íslendingar skoruðu nítján af 31 marki Elverum í leiknum.

Ingimundur Ingimundarson fór á kostum í liði Elverum og skoraði tíu mörk í leiknum. Sigurður Ari Stefánsson skoraði sex mörk og Samúel Ívar Árnason þrjú.

Kragerö tapaði enn og aftur í kvöld en liðið á enn eftir að vinna sinn fyrsta sigur í deildinni. Í kvöld tapaði liðið fyrir Runar, 34-25.

Magnús Ísak Ásbergsson skoraði sjö mörk fyrir Kragerö í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×