Í kvöld fara fram lokaleikirnir tveir í D-riðli Meistaradeildar Evrópu. Leikur AC Milan og Glasgow Celtic verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn. Celtic þarf á jafntefli að halda til að vera öruggt með að komast í sextán liða úrslit keppninnar.
Ítalska liðið er þegar komið áfram en verður að fá eitthvað út úr leiknum til að tryggja sér efsta sæti riðilsins. Gary Caldwell, varnarmaður Celtic, segir að lykilatriðið til að ná hagstæðum úrslitum í kvöld sé að ná að stöðva hinn brasilíska Kaka.
„Við þurfum að finna einhverja leið til að stöðva Kaka og reyna að koma í veg fyrir það að hann verði mikið með boltann," sagði Caldwell.
Leikurinn hefst klukkan 19:45 en á sama tíma verður leikur Shaktar Donetsk og Benfica sýndur á hliðarrás.