Handbolti

Óttaðist að liðþófinn væri farinn

Sigfús Sigurðsson fékk góðar fréttir
Sigfús Sigurðsson fékk góðar fréttir NordicPhotos/GettyImages

Harðjaxlinn Sigfús Sigurðsson verður frá keppni næstu 3-4 vikurnar hjá liði sínu Ademar Leon á Spáni eftir að hafa gengist undir litla hnéaðgerð á dögunum.

"Ég er nú bara að fara til að láta spretta saumunum úr þessu núna eftir tvær mínútur," sagði Sigufús þegar Vísir náði tali af honum í dag.

"Ég var að láta laga aðeins á mér vinstra hnéð. Það er búið að vera að stríða mér í eitt eða tvö ár þar sem það hafði brotnað aðeins upp úr hnéskelinni og brjóskinu. Þetta var að hamla réttum hreyfingum á hnénu og gerði það að verkum að þegar ég var að hlaupa var að koma vitlaust átak og ég var að skaða vöðvana í kring. Þetta var hreinsað og pússað upp og nú er það bara að koma sér í stand aftur," sagði línumaðurinn.

Hann reiknar með að verða frá keppni í nokkrar vikur en stefnir á að ná að vera með liði sínu í Asobal-bikarkeppninni dagana fyrir jól.

"Venjulega þegar menn lenda í svona þá er liðþófinn farinn líka, sérstaklega þegar menn eru búnir að djöflast svona á þessu og liðböndin gjarnan sködduð líka. Ég var svo heppinn að það var ekkert slíkt að finna hjá mér og þetta var miklu minna mál en reiknað var með fyrst. Menn sáu jafnvel fyrir sér að þetta kostaði sex vikur til þrjá mánuði, en nú reikna menn með 3-4 vikum eftir að búið er að opna þetta og skoða það," sagði Sigfús.

Hann segist hafa verið farinn að hugsa um landsliðið og lífið eftir handboltann.

"Það er auðvitað ýmislegt búið að ganga á hjá manni í gegn um tíðina hvað varðar meiðsli. Það fyrsta sem kom upp í hugann var að láta laga þetta, en þó ég hafi ekki verið að spila mikið fyrir landsliðið í síðustu leikjum, vissi ég að ég gæti takmarkað spilað fyrir landsliðið í þessu standi sem ég var í. Ég hefði kannski geta spilað 3-4 leiki en ég hefði aldrei náð að halda út heilt mót."

"Ég hugsaði með mér að ég myndi kannski ná EM ef ég færi í aðgerðina núna og því vildi ég fara strax í aðgerðina frekar en að bíða með það eins og félagið vildi helst. Þetta lítur allt miklu betur út en maður þorði að vona," sagði Sigfús léttur í bragði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×