Handbolti

Valdimar með fjögur í tapleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valdimar Þórsson leikmaður Malmö í Svíþjóð.
Valdimar Þórsson leikmaður Malmö í Svíþjóð. Mynd/Rósa

Íslenskir handboltakappar voru á fleygiferð með liðum sínum í Svíþjóð, Þýskalandi og Noregi í dag.

Valdimar Þórsson skoraði fjögur mörk fyrir HK Malmö í sænsku úrvalsdeildinni er liðið tapaði illa á heimavelli fyrir Redbergslid, 28-21. 

Guðlaugur Arnarsson komst ekki á blað með Malmö sem er í fjórða neðsta sæti deildarinnar með sjö stig, aðeins tveimur stigum fyrir ofan botnlið Trelleborg.

Redbergslid er eitt þriggja liða á toppi deildarinnar með nítján stig en liðið er þó með lökustu markatöluna af þeim þremur. Hammarby og Ystad eru einnig með nítján stig en Íslendingaliðið Sävehof kemur næst með sautján ásamt H43.

Í Noregi var Íslendingaslagur á dagskrá í dag er Elverum tók á móti botnliði Kragerö.

Sigurður Ari Stefánsson var besti maður vallarins en hann skoraði átta mörk í stórsigri Elverum, 39-26. Ingimundur Ingimundarson skoraði fjögur mörk fyrir Elverum en Samúel Ívar Árnason ekkert.

Hjá Kragerö var Magnús Ísak Ásbergsson með fimm mörk. Liðið er enn stigalaust á botni deildarinnar en Elverum er nú með tíu stig í áttunda sæti.

Í þýsku 1. deildinni, norðurriðli, gerðu Hannover-Burgdorf og Emsdetten jafntefli, 26-26.

Heiðmar Felixsson skoraði eitt mark fyrir Hannover-Burgdorf en Robertas Pauzuolis, fyrrum leikmaður Hauka, sex mörk.

Emsdetten er í örðu sæti deildarinnar með nítján stig, fimm stigum á eftir toppliði Stralsunder. Hannover-Burgdorf er í sjötta sæti með sautján stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×